31. kafli

Gunnar tók við honum og mælti til Kolskeggs og Hallvarðar: "Nú munum vér
halda til Norðurlanda."

Þeir létu vel yfir því og báðu hann ráða.

Gunnar siglir úr Austurvegi með fé miklu. Hann hafði tíu skip og hélt þeim
til Heiðabæjar í Danmörk. Haraldur konungur Gormsson var þar á land upp.
Honum var sagt til Gunnars og það með að engi var hans maki á Íslandi og
sendi konungur menn sína til hans að bjóða honum til sín. Gunnar fór þegar á
konungsfund. Konungur tók við honum vel og setti hann hið næsta sér. Þar var
Gunnar hálfan mánuð. Konungur hafði það að gamni að hann lét Gunnar reyna
ýmissar íþróttir við menn sína og voru þeir engir að né eina íþrótt hefðu
til jafns við hann.

Konungur mælti til Gunnars: "Svo virðist mér sem óvíða muni þinn jafningi
fást."

Konungur bauð að fá Gunnari kvonfang og ríki mikið ef hann vildi þar
staðfestast.

Gunnar þakkaði konungi boð sitt og mælti: "Fara vil eg fyrst til Íslands að
finna vini mína og frændur."

"Þá munt þú aldrei aftur koma til vor," segir konungur.

"Auðna mun því ráða herra," segir Gunnar.

Gunnar gaf konungi langskip gott og marga dýrgripi aðra er hann hafði fengið
í hernaði. Konungur gaf honum tignarklæði sín og glófa gullfjallaða og
skarband, og gullhnútar á, og hatt gerskan.

Gunnar fór norður til Hísingar. Ölvir tók við honum báðum höndum. Hann færði
Ölvi skip sín og kallar það vera hans hlutskipti. Ölvir tók við fénu og kvað
Gunnar vera dreng góðan og bað hann vera þar nokkura hríð.

Hallvarður spurði Gunnar ef hann vildi finna Hákon jarl. Gunnar sagði sér
það vera nær skapi "því að nú er eg að nokkuru reyndur en þá var eg að engu
er þú baðst þess næstum."

Síðan bjuggu þeir ferð sína og fóru norður til Þrándheims á fund Hákonar
jarls og tók hann vel við Gunnari og bauð honum að vera með sér um veturinn.
Hann þá það. Gunnar virðist þar hverjum manni vel. Að jólum gaf jarl honum
gullhring. Gunnar lagði hug á Bergljótu frændkonu jarls og fannst það oft á
jarli að hann mundi hana hafa gifta honum ef Gunnar hefði nokkuð þess
leitað.