Gunnar gaf honum fingurgull og gekk síðan til manna sinna og sagði þeim að
herskip lágu öðrum megin nessins "og vita þeir allt til vor. Tökum vér nú
vopn vor og búumst við öllu vel og skjótt því að nú er til fjár að vinna."

Síðan bjuggust þeir við og þá er þeir voru búnir sjá þeir að skipin fara að
þeim. Tekst nú orusta með þeim og berjast þeir lengi og verður mannfall
mikið. Gunnar vó margan mann. Þeir Hallgrímur hljópu á skip til Gunnars.
Gunnar sneri í mót Hallgrími. Hallgrímur lagði til hans með atgeirinum. Slá
ein var um þvert skipið og hljóp Gunnar aftur yfir öfugur. Skjöldur Gunnars
var fyrir framan slána og lagði Hallgrímur í hann og í gegnum og svo í
slána. Gunnar hjó á hönd Hallgrími og lamdist handleggurinn en sverðið beit
ekki. Féll þá niður atgeirinn. Gunnar tók atgeirinn og lagði í gegnum
Hallgrím. Gunnar bar atgeirinn jafnan síðan. Þeir börðust nafnar og var nær
hvorum vænna horfið. Þá kom Gunnar að og hjó Kolskegg banahögg. Eftir það
beiddu víkingar sér griða. Gunnar lét þess kost. Hann lét þá kanna valinn og
taka fé það er dauðir menn höfðu átt en hann gaf hinum vopn sín og klæði, er
hann gaf grið, og bað þá fara til fósturjarða sinna. Þeir héldu í braut en
Gunnar tók fé allt það er eftir var.

Tófi kom að Gunnari eftir bardagann og bauð að fylgja honum til fjár þess er
víkingar höfðu fólgið, kvað það vera bæði meira og betra en hitt er þeir
höfðu áður fengið. Gunnar kveðst það vilja. Gekk hann á land með Tófa. Fór
Tófi fyrir til skógar en Gunnar eftir. Þeir komu að þar sem viður var borinn
saman mikill. Tófi segir að þar var féið undir. Ruddu þeir þá af viðinum og
fundu undir bæði gull og silfur, klæði og vopn góð. Þeir bera fé þetta til
skipa. Gunnar spurði Tófa hverju er hann vildi að hann launaði honum.

Tófi svaraði: "Eg er danskur maður að ætt og vildi eg að þú flyttir mig til
frænda minna."

Gunnar spurði hví hann væri í Austurvegi.

"Eg var tekinn af víkingum," segir Tófi, "og var mér skotið hér á land í
Eysýslu og hefi eg hér verið síðan."