Síðan tók Kolskeggur jústu eina af miði fulla og drakk og barðist eftir það.
Og þar kom að þeir bræður hljópu upp á skip þeirra Vandils og gekk
Kolskeggur með öðru borði en Gunnar með öðru. Í móti Gunnari gekk Vandill og
hjó þegar til hans og kom í skjöldinn. Gunnar snaraði hart skjöldinn er
sverðið festi í og brotnaði sverðið undir hjöltunum. Gunnar hjó í móti og
sýndist hinum þrjú vera sverðin á lofti og sá hann eigi hvar hann skyldi sér
helst hlífa. Gunnar hjó undan honum báðar fætur. Kolskeggur lagði Karl
spjóti í gegnum. Eftir það tóku þeir herfang mikið.

Þaðan héldu þeir suður til Danmerkur og þaðan austur í Smálönd og börðust
jafnan og höfðu ávallt sigur. Ekki héldu þeir aftur að hausti.

Annað sumar héldu þeir til Rafala og mættu þar víkingum og börðust þegar og
fengu sigur. Síðan héldu þeir austur til Eysýslu og lágu þar nokkura hríð
undir nesi einu. Þeir sáu mann einn ganga ofan af nesinu. Gunnar gekk á land
upp að finna manninn og töluðust þeir við. Spurði Gunnar hann að nafni en
hann nefndist Tófi. Gunnar spurði hvað hann vildi.

"Þig vil eg finna," segir hann. "Herskip liggja hér öðrum megin undir nesinu
og mun eg segja þér hverjir fyrir ráða. Þar ráða fyrir bræður tveir. Heitir
annar Hallgrímur en annar Kolskeggur. Þá veit eg mesta orustumenn og það með
að þeir hafa vopn svo góð að eigi fær önnur slík. Hallgrímur hefir atgeir
þann er hann hefir látið seiða til að honum skal ekki vopn að bana verða
nema hann. Það fylgir og að þegar veit er víg er vegið með atgeirinum því að
svo syngur í honum áður að langt heyrir til. Svo hefir hann náttúru mikla
með sér. Kolskeggur hefir sax. Það er hið besta vopn. Þeir hafa lið
þriðjungi meira en þér hafið. Fé hafa þeir og mikið og hafa fólgið á landi
og veit eg gjörla hvar er. En þeir hafa sent njósnarskip fyrir nesið og vita
þeir allt til yðvar. Þeir hafa nú og viðbúning mikinn og ætla þegar að yður
að leggja er þeir eru búnir. Er yður nú annaðhvort til að leggja í braut
þegar ella búist þér við sem skjótast. En ef þér hafið sigur þá skal eg
fylgja þér til fjárins alls."