26. kafli

Ásgrímur hét maður. Hann var Elliða-Grímsson, Ásgrímssonar, Öndóttssonar
kráku. Móðir hans hét Jórunn og var Teitsdóttir Ketilbjarnarsonar hins gamla
frá Mosfelli. Móðir Teits var Helga dóttir Þórðar skeggja, Hrappssonar,
Bjarnarsonar bunu. Móðir Jórunnar var Ólöf dóttir Böðvars hersis
Víkinga-Kárasonar. Bróðir Ásgríms Elliða-Grímssonar hét Sigfús. Hans dóttir
var Þorgerður móðir Sigfúss, föður Sæmundar hins fróða.

Gaukur Trandilsson var fóstbróðir Ásgríms er fræknastur maður hefir verið og
best að sér ger. Þar varð illa með þeim Ásgrími því að Ásgrímur varð
banamaður Gauks.

Ásgrímur átti tvo sonu og hét hvortveggji Þórhallur. Þeir voru báðir
efnilegir menn. Grímur hét og sonur Ásgríms en Þórhalla dóttir. Hún var
kvenna fríðust og kurteisust og vel að sér ger í öllu.

Njáll kom að máli vil Helga son sinn og mælti: "Hugað hefi eg þér kvonfang
frændi ef þú vilt að mínu ráði gera."

"Það vil eg víst," segir hann, "því að eg veit að bæði er þú vilt vel enda
kannt þú vel eða hvar hefir þú á stofnað?"

Njáll svaraði: "Við skulum biðja dóttur Ásgríms Elliða-Grímssonar því að sá
er kostur bestur."


27. kafli

Litlu síðar fara þeir og báðu konunnar, riðu vestur yfir Þjórsá og fóru þar
til er þeir komu í Tungu. Ásgrímur var heima og tók við þeim vel og voru þar
um nóttina. En um daginn gengu þeir á tal. Þá vakti Njáll til um bónorðið og
bað Þórhöllu til handa Helga syni sínum. Ásgrímur svaraði því máli vel og
sagði eigi þá menn vera að hann væri fúsari við að kaupa en þá. Síðan töluðu
þeir um málið og lauk svo að Ásgrímur festi Helga dóttur sína og var kveðið
á brúðlaupsstefnu. Gunnar var að veislu þessi og margir aðrir hinu bestu
menn.