24. kafli

Gunnar reið til alþingis. Þeir Hrútur og Höskuldur riðu og til þings og
fjölmenntu mjög. Gunnar sækir mál þetta á þingi. Hann kvaddi búa til máls og
höfðu þeir Hrútur ætlað að veita honum atgöngu en treystust eigi. Síðan gekk
Gunnar að Breiðfirðingadómi og bauð Hrúti að hlýða til eiðspjalls síns og
framsögu sakar og sóknargagna allra. Eftir það vann hann eið og sagði fram
sök. Síðan lét hann bera stefnuvætti, þá sakartökuvætti. Njáll var eigi við
dóminn.

Nú sótti Gunnar málið þar til er hann bauð til varna. Hrútur nefndi votta og
sagði ónýtt málið og sagði hann misst hafa þeirra þriggja vottorða er í
dóminn áttu að koma. Eitt, það er nefnt var fyrir rekkjustokki, annað fyrir
karldyrum, þriðja að Lögbergi. Njáll var þá kominn til dómsins og kveðst
borgið munu geta málinu og sökinni ef þeir vildu það þreyta.

"Eigi vil eg það," sagði Gunnar, "eg skal gera Hrúti slíkan sem hann gerði
Merði frænda mínum. Eða hvort eru þeir bræður svo nær, Hrútur og Höskuldur,
að þeir megi heyra mál mitt?"

"Heyra megum við," segir Hrútur, "eða hvað vilt þú?"

Gunnar mælti: "Þeir séu heyrandi vottar er hjá eru að eg skora þér Hrútur
til hólmgöngu og skalt þú berjast við mig í dag í hólmi þeim er hér er í
Öxará. En ef þú vilt eigi berjast þá greið þú út féið allt í dag."

Síðan gekk Gunnar frá dóminum með öllu liði sínu. Þeir Höskuldur og Hrútur
gengu og heim og var málið hvorki sótt né varið þaðan af.

Hrútur mælti er hann kom inn í búðina: "Það hefir mig aldrei hent að sá
nokkur maður hafi mér einvígi boðið að eg hafi undan gengið."

"Það munt þú ætla að berjast," segir Höskuldur, "en eigi skal það ef eg ræð
því að eigi fer þér nær við Gunnar en Merði mundi við þig og skulum við
heldur greiða féið báðir saman Gunnari."

Síðan spurðu þeir bræður bændur hvað þeir vildu til leggja. Þeir svöruðu
allir að þeir mundu til leggja slíkt sem Hrútur vildi.