En þegar er menn eru sofnaðir þá skuluð þér upp standa og fara hljóðlega,
ganga út og bera söðla yðra í haga til hinna feitu hestanna og ríða þeim en
láta hina eftir. Þér skuluð ríða upp úr búfjárhögum og vera þar þrjár nætur.
Svo nokkuru mun yðvar leita farið lengi. Síðan skuluð þér ríða heim suður og
ríða um nætur en liggja um daga. En vér munum fara til þings og veita að
málunum."

Gunnar þakkaði honum og reið heim fyrst.


23. kafli

Gunnar reið heiman tveim nóttum síðar og tveir menn með honum. Þeir riðu þar
til er þeir komu á Bláskógaheiði. Þar riðu menn í móti þeim og spurðu hver
sá væri hinn mikli maður er svo lítt var sýndur. Förunautar hans sögðu að
þar var Kaupa-Héðin hinn mikli.

Þeir svöruðu: "Eigi er þar hins verra eftir von er slíkur fer fyrir."

Héðinn lét þegar sem hann mundi á þá ráða en þó fóru hvorir leið sína.

Gunnar fór með öllu sem fyrir hann var lagt og var á Höskuldsstöðum um nótt
og fór þaðan ofan eftir dal og kom á næsta bæ hjá Hrútsstöðum. Þar lét hann
falt smíðið og seldi þrjá smíðisgripi. Bóndi fann að á var smíðinu og
kallaði fals í. Héðinn réð þegar á bónda. Það var sagt Hrúti og sendi hann
eftir Héðni. Hann fór þegar á fund Hrúts og hafði þar góðar viðtökur.
Skipaði Hrútur honum gegnt sér og fór orðtak þeirra sem Njáll gat til. Þá
sagði Hrútur honum hversu upp skyldi taka málið og stefndi fyrir málinu en
hann mælti eftir og stefndi rangt. Þá brosti Hrútur og grunaði ekki. Þá
mælti hann að Hrútur skyldi stefna í annað sinn. Svo gerði Hrútur. Héðinn
stefndi þá í annað sinn og stefndi þá rétt og vitnaði undir förunauta sína
að hann stefndi handseldri sök Unnar Marðardóttur. Hann fór til svefns um
kveldið sem aðrir menn.