Þetta sá Þjóstólfur og vill eigi verða seinni og höggur þegar til Hrúts.
Hrútur brást skjótt undan högginu og laust vinstri hendi utan á hlýr öxinni
svo snart að öxin hraut úr hendi Þjóstólfi. Hrútur hjó með hægri hendi á fót
Þjóstólfs fyrir ofan knéið og hljóp að honum við og hratt honum. Féll
Þjóstólfur á bak aftur en fóturinn loddi. Þá hjó Hrútur annað högg hann til
bana og kom það í höfuðið. Þá komu út húskarlar Hrúts og sáu verksummerki.
Hrútur lét færa Þjóstólf í braut og hylja hræ hans. Síðan fór Hrútur að
finna Höskuld og sagði honum víg Glúms og svo Þjóstólfs. Honum þótti skaði
mikill að um Glúm en þakkaði honum vígið Þjóstólfs.

Nú er þar til máls að taka að Þórarinn Ragabróðir spyr lát Glúms bróður
síns. Ríður hann við tólfta mann vestur til Dala og kom á Höskuldsstaði.
Höskuldur tók báðum höndum við honum og er hann þar um nóttina. Höskuldur
sendir þegar eftir Hrúti að hann kæmi þangað. Hann fór þegar. Og um daginn
eftir töluðu þeir margt um látið Glúms.

Þórarinn mælti: "Vilt þú nokkuru bæta mér bróðurinn því að eg hefi mikils
misst?"

Höskuldur svaraði: "Eigi drap eg bróður þinn og eigi réð dóttir mín honum
bana en þegar Hrútur vissi þá drap hann Þjóstólf."

Þá þagnaði Þórarinn og þótti vandast málið.

Hrútur mælti: "Gerum við góða ferð hans. Hann hefir víst mikils misst og mun
það vel fyrir mælast og gefum honum gjafar og sé hann vinur okkar alla ævi
síðan."

Og fór þetta fram að þeir gáfu honum gjafar bræður og reið hann suður aftur.

Þau Hallgerður skiptu um bústaði um vorið og fór hún suður á Laugarnes en
hann til Varmalækjar. Og er Þórarinn úr sögunni.


18. kafli

Nú er þar til máls að taka að Mörður gígja tók sótt og andaðist og þótti það
skaði mikill. Unnur dóttir hans tók fé allt eftir hann. Hún var þá ógefin í
annað sinn. Hún var örlynd mjög og óforsjál um fjárhagi og tók að eyðast
fyrir henni lausaféið svo að hún átti ekki nema lönd og gripi.