----

"Hvað munu þeir vilja?" sagði Hrútur.

"Engi hafa þeir erindi enn upp borið fyrir mig," sagði Höskuldur.

"Við þig munu þó erindin," segir Hrútur, "þeir munu biðja Hallgerðar eða
hversu munt þú svara?"

"Hvað þykir þér ráð?" sagði Höskuldur.

"Vel skalt þú svara og segja þó kost og löst á konunni," segir Hrútur.

En í þessu tali þeirra bræðra ganga þeir út gestirnir. Höskuldur og Hrútur
gengu í mót þeim. Fagnaði Hrútur vel Þórarni og þeim báðum bræðrum.

Síðan gengu þeir allir samt á tal og mælti Þórarinn: "Eg er kominn hingað
með Glúmi bróður mínum þess erindis að biðja Hallgerðar dóttur þinnar,
Höskuldur, til handa Glúmi bróður mínum. Skalt þú það vita að hann er vel
mannaður."

"Veit eg það," sagði Höskuldur, "að þið eruð mikils háttar menn bræður. En
eg vil og segja þér í mót að eg réð ráði hennar fyrri og varð oss það að
mikilli ógæfu."

Þórarinn svaraði: "Ekki munum vér það láta fyrir kaupum standa því að eigi
skal einn eiður alla verða. Og má þetta verða vel þó að hitt yrði illa enda
spillti Þjóstólfur þar mest um."

Þá mælti Hrútur: "Gefa mundi eg yður til ráð ef þér viljið eigi þetta láta
fyrir ráðum standa er áður hefir orðið um hagi Hallgerðar, að Þjóstólfur
fari ekki suður með henni þó að ráðin takist og veri þar aldrei þrem nóttum
lengur, nema Glúmur lofi, en falli óheilagur fyrir Glúmi ef hann er lengur,
en heimilt á Glúmur að lofa það, en ekki er það mitt ráð. Skal nú og eigi
svo fara sem fyrr að Hallgerði sé eigi sagt. Skal hún vita allan þenna
kaupmála og sjá Glúm og ráða sjálf hvort hún vill eiga hann eða eigi og megi
hún eigi öðrum kenna þó að eigi verði vel. Skal þetta allt vélalaust vera."

Þórarinn mælti: "Nú er sem jafnan að það mun best gegna að þín ráð séu
höfð."