"Því er eg hér kominn," sagði Ósvífur, "að eg vil beiða þig sonarbóta."

Höskuldur svaraði: "Eigi drap eg son þinn og eigi réð eg honum bana en þó
heldur þig vorkunn til að leita á nokkurn."

Hrútur mælti: "Náið er, bróðir, nef augum. Og er nauðsyn að drepa niður illu
orði og bæta honum son sinn og rífka svo ráð fyrir dóttur þinni. Er sá einn
til að þetta orðtak falli niður sem skjótast því að þá er betur að hér sé
fátt til talað."

Höskuldur mælti: "Vilt þú þá gera um málið?"

"Það vil eg," segir Hrútur, "og mun eg ekki hlífa þér í gerðinni því að ef
satt skal tala þá hefir dóttir þín ráðið honum banann."

Þá setti Höskuld dreyrrauðan og mælti ekki nokkura hríð. Síðan stóð hann upp
og mælti til Ósvífurs: "Vilt þú nú handsala mér niðurfall að sökinni?"

Ósvífur stóð upp og mælti: "Eigi er það jafnsætti að bróðir þinn geri um. En
þó hefir þú svo vel til lagið Hrútur að eg trúi þér vel til málsins."

Síðan tók hann í hönd Höskuldi og sættust þeir svo á málið að Hrútur skyldi
gera og lúka upp gerðinni áður Ósvífur færi heim.

Síðan gerði Hrútur og mælti: "Fyrir víg Þorvalds geri eg tvö hundruð
silfurs" - það þóttu þá vera góð manngjöld - "og skalt þú gjalda þegar
bróðir og leysa vel af hendi."

Höskuldur gerði svo. Þá mælti Hrútur til Ósvífurs: "Eg vil gefa þér skikkju
góða er eg hafði út."

Hann þakkaði honum gjöfina og undi nú vel við þar sem komið var og fór heim.

Litlu síðar komu þeir þannug Hrútur og Höskuldur og skiptu fé því sem þar
stóð saman og urðu þeir Ósvífur á það vel sáttir og fóru heim með féið og er
nú Ósvífur úr sögunni.

Hallgerður beiddi Höskuld að Þjóstólfur skyldi fara heim. Höskuldur veitti
henni það og var lengi margt talað um víg Þorvalds.

Fé Hallgerðar gekk fram og gerðist mikið.