Nú tók Svanur til orða og geispaði mjög: "Nú sækja að fylgjur Ósvífurs."

Þá spratt Þjóstólfur upp og tók öxi sína.

Svanur mælti: "Gakk þú út með mér. Lítils mun við þurfa."

Síðan gengu þeir út báðir.

Svanur tók geitskinn eitt og veifði yfir höfuð sér og mælti:

Verði þoka

og verði skrípi

og undr öllum þeim

er eftir þér sækja.

Nú er frá því að segja að þeir ríða á hálsinn Ósvífur og hans förunautar. Þá
kom þoka mikil í mót þeim.

Ósvífur mælti: "Þessu mun Svanur valda og væri vel ef eigi fylgdi meira
illt."

Litlu síðar brá svo miklum sorta fyrir augu þeim að þeir sáu ekki og féllu
þeir þá af baki

og týndu hestunum og gengu í fen ofan sjálfir en sumir í skóginn svo að þeim
hélt við

meiðingar. Þeir töpuðu af sér vopnunum.

Þá mælti Ósvífur: "Ef eg fyndi hesta mína og vopn þá mundi eg aftur hverfa."

Og er hann hafði þetta mælt þá sáu þeir nokkuð og fundu hesta sína og vopn.
Þá eggjuðu

margir á að enn skyldi við leita um atreiðina og var það gert og urðu þeim
þegar hin sömu

undur. Og fór svo þrem sinnum.

Þá mælti Ósvífur: "Þó að förin sé eigi góð þá skal þó nú aftur hverfa. Nú
skulum vér gera

ráð vort í annan stað og hefi eg það helst í hug mér að fara og finna
Höskuld föður

Hallgerðar og beiða hann sonarbóta því að þar er sæmdar von sem nóg er til."

Síðan riðu þeir til Breiðafjarðardala og er nú ekki fyrr frá að segja en
þeir koma á

Höskuldsstaði. Þar var þá fyrir með Höskuldi Hrútur bróðir hans. Ósvífur
kvaddi út

Höskuld og Hrút. Þeir gengu út báðir og heilsuðu Ósvífri en síðan gengu þeir
á tal.

Höskuldur spurði Ósvífur hvaðan hann kæmi að. Hann kveðst hafa farið að
leita

Þjóstólfs og fundið hann eigi.

Höskuldur kvað hann kominn mundu norður á Svanshól "og er það eigi allra
manna að sækja hann þangað."