Einu sinni var ofurlítil stúlka, sem hafði misst foreldra sína. Hún
var ósköp fátæk og átti engan að. Hvergi átti hún skjól né athvarf
og varð að láta fyrir berast undir berum himni, því að ekki átti hún
einu sinni rúm að hvílast í. Loks var svo komið fyrir henni, að hún
átti ekki annað en fatagarmana, sem hún stóð í, og dálítinn brauð-
hleif, sem einhver hafði verið svo vænn að gefa henni. En hún var
góð stúlka og guðhrædd.
Hún ráfaði nú alein úti á víðavangi, en var þó ekkert hrædd né
kvíðin, því að hún treysti því og trúði, að guð mundi varðveita
hana.
Þá mætti hún fátækum förumanni, sem yrti á hana og sagði: 'Æ, gefðu
mér eitthvað að borða, ef þú átt nokkurn bita, því að ég er svo ó-
sköp svangur'. Hún rétti honum brauðhleifinn, eins og hann var, og
mælti: 'Guð blessi þér brauðið, maður minn'. Þá kom til hennar lítið
barn, grátandi og veinandi, og sagði við hana: 'Mér er svo skelfing
kalt á höfðinu. Æ, gefðu mér klút eða einhverja flík að binda um
höfuðið'. Og stúlkan tók strax af sér húfuna og fékk barninu.
Þegar hún hafði enn gengið nokkra stund, mætti hún öðru barni, sem
skalf af kulda, því að það var hálfnakið. Hún klæddi sig þá úr
treyjunni og færði barnið í hana. Og enn mætti hún klæðlítilli
stúlku, sem bað hana að gefa sér pils, og gerði hún það.
Loks kom hún í skóg nokkurn, og var þá tekið að rökkva. Þar mætti
hún enn stúlku, sem bað hana að gefa sér skyrtu. Stúlkan gaf henni
skyrtuna sína og stóð nú uppi allslaus.
En allt í einu tóku stjörnurnar að hrynja niður af himninum, og
voru það þá eintómir skínandi gullpeningar. Og allt í einu var hún
komin í skyrtu úr drifhvítu, dýru líni, í stað þeirrar, sem hún
hafði gefið.
Tók hún nú að safna saman gulldölunum og lifði við allsnægtir upp
frá því til dauðadags.

Grimms æfintýri