Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt
hollara úngum börnum en missa föður sinn. Þó því fari fjarri að ég
taki undir þessi orð að öllu leyti, þá sæti síst á mér að fara að
bera á móti þeim, beint. Sjálfur mundi ég orða kenníngu þessa án
kala útí heiminn, eða kanski öllu heldur, án þess sviða sem felst í
orðunum eftir hljóðan þeirra.
En hversu sem mönnum kann að þykkja um þessa skoðun, þá kom það
nú sumsé í minn hlut að standa uppi utan foreldri hér í heimi. Ég
vil ekki kalla það lán mitt, slíkt væri ofdjúpt tekið í árinni. En
óhapp get ég ekki kallað það, að minstakosti ekki að því mig sjálfan
varðar; og það var af því að ég eignaðist afa og ömmu. Hitt mætti
til sanns vegar færa að óhappið hafi verið mest fyrir föður minn og
móður, þó ekki vegna þess ég mundi hafa orðið þeim neinn
fyrirmyndarsonur, öðru nær; heldur vegna hins að börn eru nú
einusinni þarfari foreldrum en foreldrar börnum; en það er annað mál.
Til þess að gera nú lánga sögu stutta, þá er þar til máls að taka
að sunnanvið kirkjugarðinn í höfuðstaðnum okkar tilvonandi, þar sem
brekkan fer að lækka við syðri tjarnarendann, alveg á blettinum þar
sem hann Guðmundur Gúðmúnsen sonur hans Jóns Guðmundsonar í
Gúðmúnsensbúð reisti loks veglegt hús, þar stóð einusinni lítill
torfbær með tveim burstum; og þilin tvö vissu suðrað tjörninni.
Þessi litli bær hét í Brekkukoti. Í þessum bæ átti hann afi minn
heima, hann Björn sálugi í Brekkukoti sem veiddi stundum hrokkelsin
á vorin, og hjá honum sú kona sem hefur staðið nær mér en flestar
konur þó ég vissi færra um hana, hún amma mín. Þetta litla
moldarhús var ókeypis gistiherbergi handa hverjum sem hafa vildi. Í
það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð
af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land;
það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því
svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska
heldur deya.
Og þá gerðist það einhvern dag, að því er ég hef frétt, að þar
ber að garði konu nokkra únga einhversstaðar að vestan; eða norðan;
ellegar jafnvel að austan. Þessi kona var á leið til Amriku af
fátæktarsökum sínum og einstæðíngsskapar, á flótta undan þeim sem
réðu fyrir Íslandi. Mér hefur verið sagt að borgað hafi verið undir
konuna af mormónum, enda hef ég sannspurt að í þeim flokki séu
ágætastir menn einhverjir í Vesturheimi. Nema þessi kona er ég nú
nefndi til sögu, hún gerir sér lítið fyrir og verður léttari á meðan
hún stendur við þar í Brekkukoti að bíða eftir skipi. Og þessi kona,
þegar hún hefur alið barn sitt, þá verður henni litið á sveininn og
segir hún þá svo:
Þessi dreingur skal heita Álfur.
Ég mundi nú skíra hann Grím, sagði þá amma mín.
Og það eitt sem kona þessi hefur gefið mér, fyrir utan líkama og
sál, það er þetta nafn: Álfgrímur. Einsog allir föðurlausir menn á
Íslandi var ég kallaður Hansson. Síðan skildi konan mig eftir
nakinn, með þetta einkennilega nafn, í fánginu á honum Birni sáluga
grásleppukalli í Brekkukoti og hvarf á braut. Er nú kona þessi úr
sögunni.