8. Fall. Í íslensku eru fjögur föll, nefnifall, þolfall, þágufall,
og eignarfall. Nefnifall er aðalfall, hin nefnast aukaföll.
Nefnifall má finna með því að setja 'hér er' fyrir framan orðið,
þolfall með því að setja 'um' fyrir framan það, þágufall 'frá',
eignarfall 'til'.

Et. nf. Hér er hestur Ft. nf. Hér eru hestar
þf. um hest þf. um hesta
þgf. frá hesti þgf. frá hestum
ef. til hests ef. til hesta

Sum orð eru óbreytt í tveimur eða fleiri föllum, t.d. slétta, um
sléttu, frá sléttu, til sléttu; fjall, um fjall.

4. æf. Beygið í öllum föllum eintölu og fleirtölu sérhvert orð í
eftirfarandi verkefnum (a og b):
a) drengur, gestur, dagur, garður, smiður, kind, skál, ást, blóm,
land, sonur, kvæði, bók, höfn, heiði, brún, hlátur, kerling, karl,
maður, dalur, hérað, tími, kyn, skel, hani, hæna, hreiður, kind, bær.
b) akur, saga, hella, auga, lunga, hjarta, kvörn, stúlka, á,
smásjá, bóla, kona, fjörður, kjölur, hjörtur, brú, verslun, boð,
tré, læknir, fingur, auga, sumar, ber, meðal, hönd, könnuður.
Finnið fall sérhvers orðs í eftirfarandi verkefni:
c) gestum, manni, hafnar, jarða, sveitar, dvergar, stúlkur,
stúlkna, augum, firðir, degi, akri, steinar, kili, hirtir, björnum,
nálar, læknis, bær, bæjar, bæja, barni, vendi, úlfa, ernir, armi,
báts, skóg, sjávar, húss, tími, körlum, svein, fisks, jötnar,
snerli, sonar.
Finnið föll skáletruðu orðanna í eftirfarandi verkefni:
d) 'Ekkja ein rík' bjó norður á 'Melrakkasléttu'. Ekki er
greint 'nafn hennar'. 'Eitt kvöld' sótti 'hún eftirgjöf' handa 'kúm
sínum' í 'heygarð'. Lá þá í 'garðinum bjarndýr' og hafði fætt 'tvo
húna'. Sneri 'hún' þá aftur, sótti 'skjólu' og mjólkaði í 'hana'
24 'merkur' og setti fyrir 'birnuna' og drakk 'hún' úr 'skjólunni'.
Gekk svo í 'mánuð' að 'konan' gaf 'dýrinu' jafnan daglega 'mjólk'
í 'sömu skjólunni' en 'dýrið' lá með 'húnum sínum' í 'heygeilinni'.
Að 'mánuði liðnum' hvarf 'dýrið' og 'húnarnir'. En 'næsta morgun',
þegar komið var út, fundu 'menn' fyrir 'dyrum' afskaplega 'stóran
útsel' og ætluðu 'menn' að 'dýrið' hefði drepið 'hann' og
fært 'hann' þangað í 'þakklætisskyni' fyrir 'mjólkurgjöfina'.